Hér er fræðsluefni sem er aðgengilegt fyrir almenning, oftast stutt og hnitmiðað. Efnið samrýmist mínum meðferðargildum. Það getur því verið gott fyrir skjólstæðinga mína að kynna sér efnið.
Bataskólinn
“er hugsaður fyrst og fremst fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri sem glíma við geðrænar áskoranir en hann er einnig opinn aðstandendum og starfsfólki á heilbrigðis- og velferðarsviði. Ekki þarf neina tilvísun eða greiningu til að komast í bataskólann, einstaklingar meta sjálfir hvort þeir eiga erindi og sækja um sjálfir með því að senda póst á bataskoli@bataskoli.is.” – sjá nánar t.d. um námskeið og stundaskrá á bataskoli.is.
ADHD fræðsluefni
Hér er mikið efni á vefsíðu Bobbi-JO Molokken. Hún flokkar það vel eftir efni. Hún er ADHD markþjálfi í USA og vinnur eftir IFS aðferðafræðinni sem er einnig sú sem er mitt leiðarljós. Þetta er efni frá ýmsum stöðum sem hún hefur safnað. Hún greindist sjálf með ADHD á fullorðinsárum.
Heimilisofbeldi – að rjúfa þögnina, aðstoð fyrir gerendur – “Heimilisfriður”
Hér er viðtal við meðferðaraðila hjá “Heimilisfriði” um lausnir og einkenni ýmis konar ofbeldis. Heimilisfriður er meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum. Einnig er starfrækt stöð á Akureyri.
Áföll, ofbeldi og langvinnir verkir
Tengsl eru á milli langvinnra verkja á fullorðinsárum og sálrænna áfalla í æsku skv. nýrri íslenskri rannsókn. Í kynningu í Læknablaðinu segir: “Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að langvinnir verkir á fullorðinsárum og það að verða fyrir ofbeldi á fullorðinsárum getur tengst sálrænum áföllum í æsku. Einstaklingar sem verða fyrir sálrænum áföllum í æsku og ofbeldi á fullorðinsárum eru líklegri til að glíma við langvinna verki. Mikilvægt er því að gefa gaum að reynslu af áföllum og/eða ofbeldi fyrr á ævinni þegar fólk leitar til heilbrigðiskerfisins vegna langvinnra verkja.” Mín aðferðafræði í sálrænni meðferð (IFS) getur unnið með langvinna verki með því að hjálpa þeim parti sem geymir áfallið og notar verkinn til að reyna að fá hjálp.
Um
Hér er falleg grein skrifuð af einhverfum IFS meðferðaraðila sem veitir innsæi í innri heim hennar. Einhverfa er ekki partur en partar geta tekið á sig byrðar vegna viðbragða annarra og einhverfra við einkennum einhverfu. Eins og hjá taugadæmigerðu fólki.
Hér er mjög góð grunnfræðsla frá íslensku einhverfusamtökunum um einkenni einhverfu en einnig þarf að muna að enginn er eins. Á vef samtakanna er meira fræðsluefni.
Um ADHD
Pistill frá ADHD samtökunum um mikilvægi greiningar og meðferðar. Á vef ADHD samtakanna eru greinar fyrir fólk sem er með eða telur sig vera með ADHD og aðstandendur sem geta verið hjálplegar.
Líkamleg þjálfun getur dregið úr sálrænni vanlíðan
Samantekt á rannsóknum: “Stöðugt samspil á sér stað milli líkama og sálar þar sem hvort hefur áhrif á annað. Aukin þekking á því samspili gerir okkur kleift að hafa jákvæð áhrif á heilsu með ýmsu móti. Undanfarin ár hefur áhugi á hreyfingu í þessu sambandi aukist mikið og á síðustu tveimur til þremur áratugum hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á áhrifum líkamlegrar þjálfunar á andlega heilsu. Niðurstöður leiða í ljós jákvæð áhrif þjálfunar á þunglyndi, kvíða og streitu og einnig hefur verið sýnt fram á forvarnargildi þjálfunar í tengslum við geðsjúkdóma.”
Heilaþoka af völdum Covid eða annars
Ágæt löng samantekt á þessu ástandi og erfiðleikum við greiningu og meðferð.
Er sálræn vanlíðan þín vegna breytingaskeiðs (konur) –
Þarf þá hjálpin sem þú þarft að koma frá kvensjúkdómalækni?
Góð grein sem hægt er að máta sig við.
Greiningar geðsjúkdóma – áföll
Rannsakendur skoðuðu (2019, Allopp, K. o.fl.) vísindalegt gildi geðgreininga (DSM) og komust að þeirri niðurstöðu að margar þeirra eru gagnslítil tæki til greiningar vandamála. Þær fela flestar áföll sem orsök vanlíðan, mjög mikil skörun er meðal þeirra og þær veita ónógar upplýsingar um einstaklinginn og meðferð hans. Lagt er til að horft sé til áfalla og annarrar skaðlegrar reynslu sem skýringar ýmissa geðrænna einkenna.
“Taka tvö” – hlaðvarp um áfengis-og vímuefnalausan
Fjórir félagar úr ólíkum áttum ræða áfengis- og vímuefnalausan lífstíl. Hvernig er að deita, djamma, vinna, læra og lifa.
Streitustiginn
Þróun streitu, stigvaxandi, mismunandi einkenni á hverju stigi.
Myndband frá VIRK, 10 mínútur.
Offita; heildrænt viðhorf og meðferð
Hér er afar gott viðtal við Erlu Gerði Sveinsdóttur lækni sem hefur sérhæft sig í heildrænni hugsun og meðferð við offitu.
Föðurhlutverkið
Gott viðtal við föður sem átti erfitt með það hlutverk og hvernig hann vann sig í gegnum það og gjörbreytti þannig lífi sínu og fjölskyldu sinnar.
Andleg (spiritual) iðkun og vanlíðan
Michael Pasterski skýrir hugtakið spiritual bypassing og tekur dæmi frá sinni eigin vegferð.
Krónískir verkir og sálræn meðferð með IFS
Grein í Psychotherapy Networker frá prófessorum í sálfræði og læknisfræði (2021). IFS (Internal Family System) meðferð getur minnkað / unnið á slíkum verkjum.
Sálræn vanlíðan vegna breytingaskeiðs kvenna
Hér er viðtal við kvensjúkdómalækninn Berglind Steffensen um einkenni og meðferð vanlíðan vegna breytingaskeiðs kvenna. Andleg vanlíðan s.s. gæti verið vegna þess þannig að það gæti verið ástæða fyrir konur að hitta lækni til að skoða það. Hér er grein á ensku um sama efni.
Hvað er IFS og hvernig fer sú meðferð fram?
IFS (Internal Family System Therapy) er mitt megin meðferðarform, vinna með mér er IFS vinna. Hér er 5 mín. kynningarmyndband fyrir þá sem aldrei hafa heyrt um IFS. Hér taka bresku sálfræðingasamtökin ítarlegt viðtal við Dr. Richard Schwartz, upphafsmann aðferðarinnar. Hann skýrir á hverju meðferðin byggir og af hverju, hvernig hún fer fram og hvernig hún er frábrugðin öðrum meðferðum. Meðferðin er sprottin á 10.áratugnum af vinnu hans með mjög þjáðum skjólstæðingum. Þegar þeir fóru að tala um “parta” af sér ákvað hann að setja fræði sín og sérfræðikunnáttu til hliðar og verða forvitinn með opinn huga og læra af þeim. Smá saman myndaðist heildstæð mynd af innri veröld þeirra og hvernig þeir sjálfir gátu heilað sig ef þeir fengu til þess réttar aðstæður. Teiknimyndin Inside Out gefur ágæta mynd af hugmynd IFS um parta.
Það má vel yfirgefa vanhæfa foreldra
Hér er viðtal við hugrakka unga konu sem opnar á þetta erfiða mál sem vanræksla foreldra er í okkar samfélagi og hvernig margir festast í eyðileggjandi tilfinningaböndum með þeim allt lífið. Það má alveg yfirgefa slíka foreldra og það getur verið eina leiðin til að eignast gott líf – slík ákvörðun er þó alltaf erfið. Slík mál eru algeng meðal minna skjólstæðinga.
Kynferðisofbeldi, áhrif og úrvinnsla
Hér er viðtal við Sigríði Björnsdóttur sálfræðing sem varð fyrir slíku ofbeldi í langan tíma í æsku og stofnaði Blátt áfram samtökin sem hafa unnið ötullega að úrbótum fyrir þolendur ofbeldis. Ofbeldið hefur enn áhrif á hana en hún hefur bætt líðan sína og líf verulega með aðstoð. Það er hægt – ég og fleiri meðferðaraðilar beita áfallamiðaðri nálgun við úrvinnslu vanlíðan.
Uppeldi og umönnun
Sæunn Kjartansdóttir er einn af okkar mestu faglegu sérfræðingum um uppeldi barna. Hér talar hún heilsusamlegt samband foreldris og barns.
Sálræn meðferð og geðlyf
Hér er viðtal við Frank Anderson geðlækni um notkun geðlyfja með sálrænni meðferð (IFS) og hvernig hann sér mögulega ástæðu þess að lyf virka ekki alltaf nógu vel. Hann sérhæfir sig í áföllum og IFS og er einn af þeim sem kennir IFS nálgunina (Internal Family System Therapy).
Einelti
Hér er samansafn af rannsóknum á áhrifum eineltis á heila barna og unglinga. Slíkar rannsóknir eru fremur nýjar. Niðurstöður benda til svipaðra áhrifa og vanræksla og ofbeldi.
Meðferð í gegnum þætti persónuleikans (partar) – IFS
Sálræn meðferð á innri pörtum, fjölskyldan innra með okkur, er árangursrík meðferð sem í grunninn er áfallameðferð. Hér er stutt myndband (Finding your parts) sem skýrir út slíka partavinnu. Hún beinist að heilun ráðandi parta sem líður illa; Stjórnendum daglegs lífs, Útlögum sem geyma sársauka og Brunaliðiðinu hvatvísa. Þeim er hjálpað svo okkar kjarni (Sjálfið) geti notið sín og orðið (aftur) okkar innri leiðtogi. Þetta er það meðfeðarform sem ég nota mest, Internal Family System therapy.
Gabor Maté um áföll í æsku; kvíði og menning
Hér er ein af mörgum góðum greinum Gabor Maté en hann er á meðal þeirra fremstu sem fjalla um eðli og orsök fíkna, kvíða, ADHD, þunglyndis og streitu í nútíma vestrænum samfélögum. Hann er virtur og eftirstóttur fyrirlesari með mikla klíníska reynslu af því að vinna með fólki. Meðferð og stuðningur við fólk með sálrænan vanda þarf að taka mið af slíkri þekkingu. Ég vinn eftir hugmyndafræði sem byggir á þessari þekkingu.
Hvernig birtan frá snjallsímum tefur það að við sofnum
Stutt hnitmiðað myndband frá Prof Dan Siegel, einum virtasta taugalíffræðingi á sviði mannlegra tengsla.
Hvernig líf okkar getur takmarkast ef við forðumst áhættu í ákvörðunum
Örstuttur hnitmiðaður pistill.
Failure is an Event Not a Person
You only know if your decision was good or bad in hindsight.
Posted by Jay Shetty on Laugardagur, 10. nóvember 2018
Meðferðarsambandið sjálft, mikilvægur hluti meðferðar
Meðferðarsambandið getur verið bæði bein aðferð og sá faðmur sem meðferð hvílir í. Meðferðaraðilar og meðferðarstefnur leggja þó mismikla áherslu á sambandið. Tengslavandi er tilfinningaleg vanlíðan sem veldur erfiðleikum í samskiptum og nánum tengslum og skaðlegu áliti / hugsunum til manns sjálfs og annarra. Hún er sprottin af meiðandi hegðun mikilvægra aðila í lífi manns, hegðun sem hamlar þroska taugakerfis ungs barns vegna þess að tilfinningalegum þörfum þess var ekki mætt. Barn / fullorðinn einstaklingur hefur lært að bæla tilfinningar sínar og þarfir og býst við neikvæðum viðbrögðum umhverfisins gagnvart sér og tilfinningum sínum. Þunglyndi, kvíði, félagskvíði, meðvirkni,skömm eru dæmi um afleiðingar. Markvisst meðferðarsamband getur endurþjálfað taugakerfið (limbic hluta) til uppbyggilegrar sjálfsupplifunar. Hér er góð grein sem skýrir þetta nánar.
Árangursrík aðferð við að hætta að gagnrýna þig
Stutt teiknimynd sem sýnir á einfaldan hátt hvernig ég vinn með innri gagnrýnanda skjólstæðings. Innri gagnrýni getur verið svo inngróin að þú tekur ekki eftir henni, finnst hún bara eðlilega, vera “þú”. En, nei þú ERT ekki þín innri gagnrýnisrödd, hún er ekki eðlislæg, hún hefur myndast á lífsskeiði þínu við áfall og/eða fjandsamlega hegðun annarra gagnvart þér. Tilfinningamiðuð meðferð sú sem ég m.a. vinn eftir notar svo kallaða stólameðferð til að bregða birtu á gagnrýnandann og fá hann til samvinnu. Slíkt innra niðurbrot er hluti af þunglyndi og kvíða,einkum félagskvíða. Hér er góð bók um hinar ýmsu birtingarmyndir innri gagnrýni: Embracing your inner critic: turning self-criticism into a creative asset eftir Hal Stone og Sidra Stone. Og hérna er góð grein: Inner Critic: Eftir Sharon Good.
Hvernig við takmörkum okkur með sjálfsgagnrýni
Stutt áhrifamikið myndband um konu sem braust úr eigin viðjum en það er gott dæmi um það hve sjálfstal okkar hefur mikil áhrif á líðan okkar og líf okkar. Talið getur verið upphátt, eða í hljóði (algengara) og er svo djúpur hluti af okkur að við tökum ekki eftir því og trúum því sem hinum eina sannleika. Ef það er neikvætt brjótum við sjálf okkur niður. Stundum getur þetta jafnvel skoðast sem innra ofbeldi sem við myndum aldrei samþykkja frá öðrum né tala þannig við aðra. En gerum það við okkur sjálf. Þetta er eitt af því sem ég vinn með og geri það með því að skoða hvaðan þetta kemur, hjálpa fólki að samþykkja sjálft sig eins og það er, mæta þessari rödd og mótmæla, styrkja aðra hluta sjálfsins, gefa þeim meiri rödd og vinna með hina ótalmörgu styrkleika viðkomandi sem þessi rödd gerir lítið úr.
Ofbeldi í æsku hefur áhrif á þroskun taugakerfisins
Nýleg rannsókn sýndi “hversu afgerandi og áþreifanleg áhrif ofbeldi getur haft á óþroskaðar sálir. Ofbeldi, af hvaða tagi sem það er, er ekki bara eitthvað sem börn gleyma eða þurfa að jafna sig á. Það getur raunverulega breytt því hvernig efnaskipti eiga sér stað í heilanum. Ofangreind rannsókn er líklega sú fyrsta til að sýna fram á þetta.” Umfjöllun um rannsóknina er í Hvatinn, 26.09.17. Rannsóknir sýna líka að hægt er að bæta fyrir slíkan skaða með sálrænni meðferð. Slík meðferð er hluti af minni sérhæfingu.
Ekki gefast upp
Þessir litlu andarungar komust allir í öryggið, á leiðarenda. Einn varmjög fljótur, einn var lang síðastur, flestir komust upp á svipuðum tíma. Þannig erum við mannfólkið líka. Við erum mis hröð, með mis mikinn kraft. Úrvinnsla á erfiðri æsku, atburðum og heilsu er einstaklingsbundið ferli sem við förum mishratt í gegnum. Sumir þurfa meiri aðstoð og meðferð en aðrir bæði vegna þess að við erum misjöfn að gerð, höfum mismunandi reynslu og fengum mis sterkan grunn í genum okkar og atlæti fyrstu árin. Ekki gefast upp í leit þinni að betri líðan, að betra lífi. Leiðin þangað er ekki alltaf stutt og auðveld. Ég vinn með þér á þeim hraða og dýpt sem þér hentar.
Sjálfsdýrkun – vanlíðan
Mikið hefur verið lagt upp úr því að efla jákvætt sjálfsmat ungmenna undanfarna áratugi. Dr. Kristín Neff veltir því fyrir sér hvort það hafi farið úr böndunum, sé orðið að sjálfsdýrkandi faraldri og vitnar þar í 20 ára langtíma samanburð á ungmennum (Jean M. Twenge, Generation Me). Í meðferðarvinnu minni er mér ljóst hve hátt sjálfsálit getur valdið mikilli vanlíðan auk þess sem lágt sjálfsmat getur dulist undir því. Þeim sem finnst þeir vera eða eiga að vera betri en aðrir lenda oft í mikilli vanlíðan þegar þeir standast ekki sínar háleitu ofurkröfur. Sem alltaf gerist á einhvern hátt, einhvern tímann. Fallið er hátt úr því að vera bestir, stórkostlegir í að vera ömurlegir, í ruslflokki. Það er enginn staður þarna á milli í þeirra huga heldur bara allt eða ekkert. Líf / sjálfsmat í gráa massanum á milli, þar sem flestir jarðarbúar lifa, er ekki í boði í þeirra huga. Upplifun af sjálfum sér sem einskis virði er ávísun á óöryggi, kvíða og þunglyndi sem nært er af innri sjálfsgagnrýni, jafnvel hatri og fyrirlitningu og getur leitt til mjög erfiðrar tilvistarkrísu. Að temja sér sjálfshlýju / sjálfsvinsemd / sjálfssamþykki er virk leið út úr slíkum vanda, en slíkt viðhorf til sjálfs sín er mörgum framandi frá unga aldri enda ekki hátt skrifað í okkar menningu heldur oft dæmt sem aumingjaskapur, sjálfsvorkunn og linkind. Þó samfélag okkar næri sjálfsdýrkun þá á slíkt oft dýpri rætur í æsku, í fjölskyldum. Hluti af minni meðferð er að hjálpa fólki að vinda ofan af þessum misskilningi og með því öðlast lífvænlegra meira nærandi samband við sjálfa sig og aðra. Bókin Humanizing the Narcisstic style eftir Stephen Johnson fjallar um sjálfsdýrkun á faglegan, hlýjan og skilningsríkan hátt.
Að vera innan um tré / gróður
lækkar blóðþrýsting, bætir ónæmiskerfið, eflir hjartað, minnkar depurð og stress. Frá heilbrigðisráðuneyti Japan. Fyrst er texti en fyrir þá óþolinmóðu er örstutt myndband með samantekt neðst á síðunni.
Mótþrói og reiði barna: kvíði
Hér er góð grein um hve margvísleg birtingarmynd almenns kvíða og félagskvíða er hjá börnum. Mikill kvíði getur verið orsök hegðunarvanda barna sem birtist sem reiði og árásargirni. Kvíðin börn eru ekki alltaf lítil í sér, fela sig. Þau eiga erfitt með að tjá það, getur skort orð og skilning á vanlíðan sinni.
Um eðli og orsök fíkna
Stutt skýrt myndband með Gabor Maté þar sem hann tengir tengslaskaða (einkum í æsku) og þann sársauka sem honum fylgir við fíknir. Sálræn vinna með slíkan undirliggjandi sársauka er eitt af því sem ég vinn með í meðferð. Bók hans “In the realm of hungry ghosts: close encounters with addictions” fjallar um fíknir. Hann skrifar líka um streitu og ADHD (The Power of Addiction and The Addiction of Power).
Hvernig barni með ADHD getur liðið
Gott myndband þar sem tvö 6 ára börn svara sömu spurningum. Annað er með ADHD. Skýr munur er á því hvernig þeim líður. Er hægt annað en að finna til með ADHD barninu? Það myndi hjálpa ADHD barni sem verður á vegi þínum ef þú gætir kallað fram hluttekningu í stað þess að verða pirraður/pirruð út í barnið. Fleiri fræðslumyndbönd eru á Youtube. Á Íslandi er ADHD félag sem veitir m.a. fræðslu og leiðsögn. Á bókalistanum neðst á síðunni eru 2 bækur sem ég mæli með.
Er sársauki að stýra hegðun barnsins?
Hér er grein eftir Jane Evans fyrir t.d. foreldra og kennara um mögulega undirrót hegðunarerfiðleika barna sem hafa orðið fyrir vanrækslu eða öðru ofbeldi í æsku – að meðtöldum fyrstu 2 árunum. Áður en vitrænt minni (“minni”) myndast, geymir líkaminn reynslu sem birtist m.a. sem óskiljanleg tilfinningaleg vanlíðan og þörf sem brýst út í hegðun. Skilningur á þessu getur hjálpað fullorðnum að bregðast við á heilandi hátt fyrir barnið. Tilfinningaleg vanræksla er form af andlegu ofbeldi og á sér líka stað á heimilum sem virðast til fyrirmyndar, líta vel út utan frá. Sálræn meðferð, jafnvel á fullorðinsárum, getur hjálpað við úrvinnslu slíkra áfalla. Ég býð slíka meðferð með góðum árangri.
Að tengjast, tjá þarfir sínar og vera í nánd
Göngutúr í náttúru minnkar neikvæðar hugsanir
Hér er rannsókn þar sem helmingur þátttakenda gekk um náttúru og helmingur gekk um götur í 90 mínútur. Neikvæðar hugsanir minnkuðu aðeins hjá náttúruhópnum. Í Reykjavík eru nokkrir gróðurmiklir náttúrustaðir fyrir léttar göngur eins Öskjuhlíð og Elliðaárdalur og svo Heiðmörk aðeins lengra. Í Hafnarfirði er Hvaleyrarvatn og Vífilstaðasvæðið. Með reglulegum göngum getum við bætt geðheilsu okkar og líðan. Smá saman er hægt að auka álagið ef maður vill og fara a litlu fellin í Mosfellsbæ, Úlfarsfell og Helgafell í Hafnarfirði. Esjan býður svo þeirra sem ekki geta hætt …. Göngur geta líka bætt geðheilsuna í gegnum styrkingu á félagslegum tengslum ef við göngum með hópi eða vini. Smá ganga getur því gert mikið fyrir sálræna, félagslega og líkamlega líðan. Er kannski einhver vinur/vinkona þín sem vantar þig sem göngufélaga?
Tengslaskortur (áföll)
Góður pistill frá Sæunni Kjartansdóttur, “Blaður um áföll”. Tengslaáföll úr barnæsku, einkum fyrstu 2 árin, virðast mér vanmetin. Skaðleg áhrif þeirra á lífið og þáttur þeirra í vanlíðan og geðröskunum virðist mér vera treglega skilinn, jafnvel í sálræna geiranum. Þetta eru hin földu áföll sem eru / voru því miður hluti af daglegu lífi sumra barna og skapa niðurbrjótandi sjálfsmynd sem hamlar fólki í að njóta hæfileika sinna og þess sem lífið býður upp á. Það er hægt að vinna með þessi áföll og afleiðingar þeirra og er sú vinna oftast eflandi og djúpstæð.
Hreinskilni og skömm gagnvart meðferðaraðila
Rannsókn (Blanchard og Falber, 2015) með 547 einstaklingum í meðferð sýndi að 92% höfðu einhvern tímann sagt ósatt, einkum um lyfjanotkun, sjálfsmorðshugsanir og afbrot sem þeir höfðu framið. Einnig höfðu þeir gert lítið úr vanlíðan sinni. Ástæður þessa voru einkum skömm og ótti við að vera lagður inn á geðdeild. 72,3% höfðu sagt ósatt um hve mikið meðferðin var að gagnast þeim og hve mikið þeir mátu framlag meðferðaraðilans. Fram kom að sterk tengsl meðferðaraðila við skjólstæðing sinn hvatti fólk til að segja satt og hreinlega það að meðferðaraðili spyrði beint út um hluti. Hreinskilni er mikilvæg í sálrænni meðferð og þarf meðferðaraðili að skapa traust og samþykkjandi andrúmsloft velvildar og skilnings í herberginu til þess að einstaklingur geti leyft sér að opna fyrir það sem hann/hún skammast sín fyrir. Ég legg mig fram um að skapa þannig andrúmsloft með skjólstæðingum mínum. Skömm er nefnilega grunnur margvíslegrar heðgunar og innra niðurbrots og hindrar fólk í að lifa lífi sínu til fullnustu í frelsi. Skömmin heftir, hamlar og étur mann að innan. Oft liggja djúp sár undir skömminni – hafa skapað hana. Stundum veit fólk ekki af hverju það metur sjálft sig svo lítið (skömm) og þorir ekki að sýna sitt sanna sjálf og heldur að sitt lága sjálfsmat sé sannleikurinn um þau. Það er fjarri sanni. Sálræn meðferð vinnur á þessu.
Krækjur á greinar
Inner Critic: hvernig okkar innri gagnrýni brýtur okkur niður og hvaðan hún kemur. Eftir Sharon Good.
Sjálfstraust: Grein um sjálfstraust og mögulegar ástæður brotins sjálfstrausts. Eftir Pál Einarsson.
Um meðferð við fíknum eftir Lance Dodes.
Bækur um sálræn efni sem eru aðgengilegar almenningi
Um meðvirkni og skömm
Heimkoman eftir John Bradshaw. Með æfingum.
Aldrei aftur meðvirkni eftir Beatty Melody.
Meðvirkni – orsakir,, einkenni, úrræði eftir Piu Mellody.
Healing the shame that binds you eftir John Bradshaw.
Co-dependence: healing the human condition eftir Charles L. Whitfield.
Um sjálfsgagnrýni
Embracing your inner critic: turning self-criticism into a creative asset eftir Hal Stone og Sidra Stone.
Um þunglyndi
Positive Psychology for overcoming depression eftir Miriam Akhtar.
Um tengslamyndun / þarfir í æsku
Why love matters: how affection shapes a baby´s brain eftir Sue Gerhardt.
A secure base: clinical applications of attachment theory eftir John Bowlby.
Árin sem enginn man eftir Sæunni Kjartansdóttur.
Um fíknir
Fíknir: eðli fíknar og leiðir til að losna úr vítahringnum eftir Craig Nakken, þýðandi Stefán Steinsson.
Getting beyond sobriety eftir Michael Craig Clemmens.
In the realm of hungry ghosts: close encounters with addictions eftir Gabor Maté.
Hvað gengur fólki til eftir Sæunni Kjartansdóttur.
Um áföll og ofbeldi
8 lyklar að öruggum bata eftir áföll eftir Babette Rothschild. Góð sjálfshjálparbók með æfingum.
The body remembers eftir Babette Rothschild.
Walking the tiger: healing trauma eftir Peter A.Levine. Hvernig áföll eru losuð sem orka úr líkamanum.
Hið þögla stríð: einelti á Íslandi. Svava Jónsdóttir ritsjóri.
Ofbeldi – margbreytileg birtingarmynd. Erla Kolbrún Svavarsdóttir ritsjóri. Fókus: rannsóknir, konur.
The Body keeps the score eftir Bessel van der Kolk. Einn virtasti fræðimaður og meðferðaraðili í áfallameðferð. Nýjasta bók hans, góð heildræn bók yfir stöðu meðferðarmála í dag.
Um kvíða
Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum. Aðgengileg sjálfshjálparbók með æfingum. Eftir SóleyjuDröfn Davíðsdóttur.
Um ADHD
Scattered: How Attention Deficit Disorder Originates and What You Can Do about it. Eftir Gabor Mate.
Taking Charge of Adult ADHD eftir Russle A. Barkley og Christine M. Benton.